154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þar erum við sammála og kannski eru þar einhverjir fletir sem gætu mæst vegna þess að aðalatriðið er auðvitað afkoma fólks og hvernig það hefur það þegar upp er staðið, ekkert endilega hver uppspretta þeirrar velsældar er, hvort hún er krónutala í launaumslagi eða ókeypis mennta- og heilbrigðiskerfi og sterk velferðarþjónusta. Ég held að við séum ekkert svo ósammála um það. Ég staldra þó dálítið við af því að ég hef heyrt dálítið mikið talað um það, m.a. í ræðunni á undan, að verið sé að gagnrýna skort á aðhaldi. Ég er algjörlega sammála því, en í mínum kokkabókum er hægt að sýna aðhald með tvennum hætti í ríkisfjármálunum. Vissulega er hægt að gera það með því að skera niður útgjöld, en líka er hægt að gera það með því að afla tekna. Við í Samfylkingunni höfum einfaldlega bent á að það sé ekki augljóst að þensluna sem hér ríkir megi fyrst og fremst rekja til venjulegs launafólks eða millitekjufólks, heldur hafa afmarkaðir hópar í samfélaginu ráð á að keyra partíið áfram langt umfram það sem væri æskilegt við þessar aðstæður. Við þær kringumstæður getur verið mjög skynsamlegt að sýna aðhald líka með því að leggja álögur á þá hópa sem mjög vel mega við því, gjarnan með betri velferðarþjónustu eða lækkun skatta til allra lægstu tekjuhópanna í leiðinni og þannig jafna kjörin.